Vilja erlenda lækna og verkfræðinga

Angel Merkel, kanslari Þýskalands.
Angel Merkel, kanslari Þýskalands. AFP

„Þýski vinnumarkaðurinn mun þegar fram í sækir þurfa 200 þúsund erlenda starfsmenn á hverju ári til þess að anna eftirspurn eftir vinnuafli,“ segir Frank-Jurgen Weise, yfirmaður þýsku vinnumálastofnunarinnar, í viðtali við þýska dagblaðið Rheinische Post. Hvatti hann menntað fólk í Suður-Evrópu til þess að koma til starfa í Þýskalandi.

Weise sagði ennfremur í viðtalinu að 8% fleiri erlendir starfsmenn hefðu komið til Þýskalands frá Spáni, Ítalíu og Grikklandi, sem öll hafa orðið illa úti vegna efnahagserfiðleikanna á evrusvæðinu, á síðasta ári miðað við árið á undan samkvæmt frétt AFP. Sagði hann að helst væri sóst eftir því að fá verkfræðinga, lækna og annað menntað starfsfólk í heilbrigðisgeiranum til starfa í Þýskalandi.

Fram kemur í fréttinni að Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hafi í heimsókn til Spánar á síðasta ári hvatt ungt menntað fólk til þess að leita að vinnu í Þýskalandi en atvinnuleysi á meðal ungs fólks á Spáni er yfir 50%. Þá segir að skortur á vinnuafli sé eitt helsta vandamál Þjóðverja vegna lágrar fæðingatíðni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert