Koma á lúxusbifreiðum að sækja aðstoð

Rauði krossinn á Kýpur hefur um langt skeið aðstoðað fólk sem hefur átt erfitt með að láta enda ná saman. Nú virðist sem neyðin sé orðin svo mikil að einhverjir þeirra sem leita eftir mataraðstoð koma á eðalvögnum svo sem BMW.

Fjölmargar fjölskyldur voru mættar við höfuðstöðvar Rauða krossins í höfuðborg landsins, Níkósíu, þegar AFP fréttastofan átti leið um. Hingað til hafa það einkum verið innflytjendur frá Afríku, Asíu og Miðausturlöndum sem hafa þurft á aðstoð að halda en nú virðist kreppa að víðar þar sem innfæddir Kýpurbúar úr öllum stéttum sækja nú um að fá mataraðstoð.

„Í dag eru það einkum innfæddir Kýpurbúar sem leita eftir aðstoð. Við sjáum fólk koma hingað á BMW og Mercedes til þess að sækja mat,“ segir Takis Neophytou, framkvæmdastjóri Rauða krossins. „Fyrir einungis nokkrum mánuðum bjó þetta fólk við þægileg kjör. Þetta er mjög sorglegt,“ segir Neophytou.

Hann áætlar að Rauði krossinn sjái um að veita um eitt þúsund manns mataraðstoð á mánuði en áður voru það um 300 manns sem þurftu á aðstoðinni að halda.

Margir þeirra sem voru í biðröðinni í morgun voru í sinni fyrstu ferð til Rauða krossins til þess að fá mataraðstoð. Þeir hafa margir misst vinnuna undanfarið eða hafa orðið illa út úr björgun bankanna.

Costas Costaris, 48 ára, er atvinnulaus fjölskyldufaðir. Hann hefur búið í húsnæði frá hinu opinbera síðan fjölskylda hans flúði að heiman þegar Tyrkir réðust inn í norðurhluta Kýpur árið 1974. Hann hefur hins vegar aldrei þurft að fá mataraðstoð fyrr. „Ég vann áður sem flutningabílstjóri og þurfti ekki á stuðningi að halda. Nú er ég hins vegar búinn að vera atvinnulaus síðan í desember,“ segir hann og bætir við að hann sé bara fegin að það sé einhver sem er reiðubúinn til að styðja við bakið á þeim sem þess þurfa.

Einstæð fjögurra barna móðir er meðal þeirra sem fengu aðstoð í dag en ástæðan er sú að bætur sem hún fær frá hinu opinbera bárust ekki á réttum tíma í apríl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert