Rúmenar fresta upptöku evrunnar

AFP

Ríkisstjórn Rúmeníu hefur horfið frá því markmiði sínu að taka evruna upp sem gjaldmiðil landsins árið 2015. Fram kemur á fréttavef Daily Telegraph að í nýrri skýrslu rúmenskra stjórnvalda sé engin ákveðin tímasetning tilgreind í því sambandi.

Fram kemur í fréttinni að Traian Basescu, forseti Rúmeníu, hafi látið þau orð falla í síðasta mánuði að fyrri tímasetning hafi verið óraunhæf. Þá hafi Victor Ponta, forsætisráðherra landsins, sagt um svipað leyti að árið 2020 væri nær lagi. Forsætisráðherrann hafi engu að síður lagt áherslu á það að aðild að evrusvæðinu væri sem fyrr markmið rúmenskra stjórnvalda „en við getum ekki orðið aðili illa undirbúin enda væri það fyrst og fremst slæmt fyrir okkur en einnig önnur aðildarríki evrusvæðisins.“

Rúmenía er skuldbundin til þess að taka upp evruna samkvæmt aðildarsamningi sínum við Evrópusambandið en landið gekk í sambandið 2007. Engin föst tímasetning er þó til staðar í því sambandi. Rifjað er upp í fréttinni að pólsk stjórnvöld hafi einnig tekið ákvörðun um það nýverið að fresta upptöku evrunnar þar til eftir árið 2015.

Frétt Daily Telegraph

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert