Hóta að hindra fríverslunarviðræður

AFP

Viðskiptaráðherra Frakklands Nicole Bricq sagði við fjölmiðla í gær að frönsk stjórnvöld myndu koma í veg fyrir að viðræður hæfust á milli Evrópusambandsins og Bandaríkjanna um fríverslunarsamning nema samþykkt væri að viðræðurnar næðu ekki til hljóð- og myndverka. Þar með talið er meðal annars efni framleitt fyrir sjónvarp og útvarp.

„Afstaða Frakklands er að við viljum að menningarmálum verði haldið fyrir utan viðræðurnar. Þetta er ófrávíkjanlegt,“ sagði ráðherrann samkvæmt frétt Reuters en stefnt hefur verið að því að viðræðurnar hæfust formlega í sumar. Bricq hefur áður lýst þeirri afstöðu að of snemmt væri að hefja viðræðurnar þá. Frakkar hafa einnig sett ýmsa fyrirvara við viðræðurnar með tilliti til landbúnaðarmála en þeir vilja ekki að Evrópusambandið opni markaði sína fyrir erfðabreytt matvæli frá Bandaríkjunum og kjötvörur af dýrum sem fengið hafa hormónagjafir.

Frétt Reuters

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert