Stúlkunni með „útblásna höfuðið“ líður betur

Læknar segja að 15 mánaða indversk stúlka, sem er með vatnshöfuð og hefur verið kölluð „barnið með útblásna höfuðið“, hafi það gott. Eftir að myndir AFP-fréttastofunnar af barninu voru birtar í fjölmiðlum bauðst sjúkrahús í Delí til þess að veita stúlkunni meðferð. Ástand hennar var orðið lífshættulegt. Aðgerðin sú verður flókin.

Sjúkdómur Roonu Begum lýsir sér þannig að mikið magn vökva safnast fyrir við heila hennar. Foreldrar hennar, sem eru fátæk og búa í litlu þorpi, höfðu ekki efni á læknismeðferð.

En myndirnar af stúlkunni breyttu öllu. Sjúkrahús í Delí bauðst til að sinna stúlkunni og velviljað fólk um alla heimsbyggðina söfnuðu pening á netinu fyrir aðgerðinni sem fyrirhuguð er.

Höfuð Roonu litlu er um 94 sentímetrar í ummál. Vökvasöfnunin þrýstir á heila hennar og hún getur ekki setið upprétt eða skriðið eins og flest önnur börn á hennar aldri.

Læknirinn sem nú sinnir henni er þekktur indverskur taugaskurðlæknir og starfar á einkareknu sjúkrahúsi í Delí. hann segir við AFP að stúlkunni líði vel enn sem komið er.

En hann bætti við: „Sjúkdómur hennar er mjög flókinn og við erum enn að skoða hvernig best er að bregðast við.“

Algengasta aðgerðin við vatnshöfði er að tappa vatninu af heilanum til annarra staða í líkamanum svo blóðrásin nái að vinna úr vökvanum.

En þar sem höfuð Roonu litlu er svo stórt miðað við líkama hennar vandast málið.

Höfuð hennar er mörgum sinnum stærra en kviður hennar og því þarf að meta hversu mikinn vökva hægt er að færa til í þessum litla líkama.

Faðir Roonu er aðeins 18 ára og vinnur í múrsteinsverksmiðju. Læknarnir í heimabænum sögðu honum að stúlkan þyrfti meðferð en hann hafði alls ekki efni á henni.

Hér má fara inn á síðu til söfnunar fyrir Roonu.

Frétt mbl.is: Stúlkan með „útblásna höfuðið“ þarfnast kraftaverks

mbl.is