Íbúar West fá að snúa heim á ný

AFP

Einhverjir þeirra sem þurftu að yfirgefa heimili sín eftir gríðarlega öfluga sprengingu í áburðarverksmiðju við bæinn West í Texas fengu að snúa aftur heim í dag.

Alls létust fjórtán í sprengingunni en nánast allir þeir sextíu sem lýst hafði verið eftir fundust heilir á húfi á hótelum eða heima hjá vinum í nágrenninu. Talið er að enn geti verið tveggja saknað en það liggur ekki nákvæmlega fyrir.

Flestir þeirra sem létust voru slökkviliðs- eða björgunarmenn sem voru sendir á staðinn vegna elds sem hafði blossað upp í verksmiðjunni fyrir sprenginguna, að sögn bandaríska dagblaðsins The New York Times. Um 200 manns særðust í sprengingunni.

Um 50 íbúðir gereyðilögðust í sprengingunni, auk þriggja slökkviliðsbíla og eins sjúkrabíls. Yfirvöld sögðu að ekki væri enn vitað hvað olli eldinum og sprengingunni. Ekkert hefði komið fram sem benti til þess að sprengingin hefði orðið vegna íkveikju eða annars glæpsamlegs athæfis. Í verksmiðjunni var mikið magn af áburði sem inniheldur ammoníumnítrat og getur sprungið við mikinn hita.

Langar bílalestir mynduðust þegar óþreyjufullir íbúar biðu eftir því að komast heim til sín til að sjá hvort miklar skemmdir væru á húsum þeirra.

Lögreglan í Texas fylgdist vel með bílalestinni í dag
Lögreglan í Texas fylgdist vel með bílalestinni í dag AFP
mbl.is