Rændi börnum og seldi til ættleiðingar

Alsír var áður frönsk nýlenda.
Alsír var áður frönsk nýlenda. AFP

Alsírskur læknir hefur verið dæmdur í tólf ára fangelsi fyrir að hafa rænt börnum einstæðra mæðra í Alsír og selt þau til ættleiðingar í Frakklandi.

Khelifa Hanouti var ákærður fyrir að hafa rænt börnunum með aðstoð starfsmanns hins opinbera. Er honum einnig gert að greiða tíu þúsund evrur, 1,6 milljónir króna, í sekt fyrir brot sín.

Sex Frakkar af alsírskum uppruna, búsettir í frönsku borginni Saint-Etienne, voru einnig dæmdir fyrir aðild að barnsránunum. Fengu þeir tíu ára fangelsi hver auk þess sem hver þeirra þarf að greiða 20 þúsund evrur í sekt. Enginn þeirra var viðstaddur dómsuppkvaðninguna í Alsír í gærkvöldi.

Lögbókarinn, sem var ákærður fyrir að falsa opinber gögn, fékk þriggja ára skilorðsbundinn dóm en annar félagi hans var sýknaður.

Saksóknari hafði farið fram á tuttugu ára fangelsi og 50 þúsund evra sekt yfir Hanouti. Hann var ákærður fyrir að hafa rænt, með aðstoð hinna, níu börnum af einstæðum mæðrum og sent þau til ættleiðingar til Saint-Etienne.

Upp komst um málið árið 2009 er ung kona lést þegar hún fór í fóstureyðingu í Ain Taya-hverfinu í Algeirsborg. Fóstureyðingin var gerð á læknamiðstöð sem Hanouti rak. Í fyrstu beindist rannsóknin að ólöglegum fóstureyðingum en þeim hluta rannsóknarinnar var síðar hætt. Hanouti var dæmdur fyrir að framkvæma ólöglegar fóstureyðingar árið 2002 og dæmdur í tveggja ára fangelsi á þeim tíma. Var hann látinn laus níu mánuðum síðar. Fóstureyðingar eru ólöglegar í Alsír og eiga konur yfir höfði sér allt að tveggja ára fangelsi fari þær í fóstureyðingu. Sá sem framkvæmir fóstureyðinguna á hins vegar yfir höfði sér allt að fimm ára fangelsi.

mbl.is