Týnd kynslóð Spánverja

„Maður má ekki missa vonina, en suma daga sér maður bara svart,“ segir 28 ára spænsk kona, Paloma, en hún hefur verið atvinnulaus í meira en ár. Atvinnuleysisbæturnar eru hættar að berast og hún íhugar að freista gæfunnar annars staðar. Milljónir ungra Spánverja eru í sömu sporum.

Atvinnuleysi á Spáni mælist 27%. Og það er fremur lágt ef aðeins er miðað við 16 til 24 ára. Í þeim hópi er 57% atvinnuleysi. Spánverjar fengu heldur engar gleðifréttir í dag þegar þjóðhagsspá Seðlabanka Spánar var birt. Eins og lesa mátti á mbl.is þá kemur fram í spánni að samdráttur muni ríkja á Spáni á öðrum ársfjórðungi. Atvinnulausum fjölgar þó hægar en áður.

Milljónir starfa hafa tapast á undanförnum árum á Spáni. Paloma sem er löggiltur þýðandi er eitt fórnarlamba efnahagslægðarinnar. Hún starfaði í ráðuneyti í Madríd en var sagt upp í hagræðingaraðgerðum. Hún hefur leitað að atvinnu en finnur ekki einu sinni starf þar sem gerðar eru mun lægri kröfur um menntun.

Paloma íhugar, líkt og margir ungir Spánverjar, að yfirgefa landið og reyna finna sér annars staðar. Hún segir að þó sér finnist gaman að ferðast og sjá önnur lönd sé það ákaflega erfið tilhugsun að yfirgefa heimaland sitt af hreinni nauðsyn. En hún sér lítið annað í stöðunni.

Gert var samkomulag við stjórnvöld í Þýskalandi um að veita ungum Spánverjum tækifæri á vinnumarkaðnum þýska. Þetta hafa margir nýtt sér og er talið að um þrjátíu þúsund hafi haldið til Þýskalands í fyrra. Þá eru ótaldir allir þeir sem hafa freistað gæfunnar annars staðar.

„Þetta er vafalaust týnda kynslóðin,“ segir Sara Balina, sérfræðingur hjá ráðgjafafyrirtækinu AFI. Hún segir að staðan í atvinnumálum ungra Spánverja muni draga dilk á eftir sér og hafa gríðarleg neikvæð áhrif til lengri og skemmri tíma.

mbl.is