Vill rannsaka kjöt í ESB betur

Tonio Borg fer með heilbrigðismál innan framkvæmdastjórnar ESB.
Tonio Borg fer með heilbrigðismál innan framkvæmdastjórnar ESB. AFP

Yfirmaður heilbrigðismála hjá Evrópusambandinu er hlynntur því að aftur verði tekin DNA-sýni úr kjöti sem framleitt er og dreift innan svæðisins til kanna hvort enn megi finna hrossakjöt í vörum sem sagðar eru innihalda nautakjöt.

Mörg þúsund slík sýni voru tekin í mars og apríl og var niðurstaðan sú að í einu af hverjum 20 sýnum mátti greina hrossakjöt í vörum sem sagðar voru innihalda eingöngu nautakjöt. Tonio Borg, yfirmaður heilbrigðismála hjá ESB segir að þetta hlutfall hafi verið lágt en hann vilji að það sé enn lægra.

„Þess vegna styð ég það að farið verði aftur í sýnatökur til að athuga hvort þetta hafi breyst eða viðgangist enn,“ segir Borg. Hann segir að ESB-löndin verði að samþykkja slíkt eftirlit.

Borg sagði í vetur, er hrossakjötshneykslið náði hámarki, að vandinn fælist fyrst og fremst í því að verið væri að svindla vísvitandi á neytendum, hrossakjöt væri selt sem nautakjöt. Málið snerist því ekki um matvælaöryggi enda hefðu rannsóknir sýnt að hrossakjötið væri í langflestum tilvikum hæft til neyslu.

Hann ítrekaði  þetta í dag en benti á að nota mætti kerfi innan ESB sem kannar matvælaöryggi einnig til að fylgjst með hugsanlegum vörusvikum.

Miklu máli skipti að heilbrigðisyfirvöld ESB-landanna geti fljótt og vel skipst á upplýsingum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert