Hugo Chavez í himnaríki

„Djöfullinn er kominn, ég finn lykt af brennisteini,“ segir teiknimyndafígúran Hugo Chavez við uppreisnarhetjurnar Simon Bolivar og Che Guevara þegar „Sammi frændi“ (e. Uncle Sam) mætir þeim í himnaríki, í nýrri teiknimynd sem venesúelska sjónvarpsstöðin Barrio TV sýndi í gær.

Rúmir þrír mánuðir eru liðnir síðan Hugo Chavez lést úr krabbameini en minningu hans er svo sannarlega haldið á lofti í Venesúela, nú síðast í umræddri teiknimynd þar sem hann sést svífa um á skýi, að því er virðist í himnaríki, og hæðast að Bandaríkjunum.

Ummæli Chavez um djöfulinn féllu í reynd árið 2006 í húsi Sameinuðu þjóðanna í New York, þar sem Chavez lýsti George W. Bush þáverandi Bandaríkjaforseta með þessum orðum í ræðu.

Hin vinsæla bandaríska táknmynd Uncle Sam sést í teiknimyndinni íklæddur bol í bandarísku fánalitunum. Honum er á endanum sparkað aftur niður til jarðar, á meðan hundur sleikir á honum andlitið. 

„Þú ert asni, herra Hætta. Kanaveldi, drullaðu þér heim,“ segir teiknimyndafígúran Chavez þá, sjálfur klæddur fagurrauðri skyrtu eins og hann skartaði svo gjarnan í lifandi lífi.

Þetta er annar þátturinn í teiknimyndasyrpu sem tekin var til sýninga í apríl. Í fyrsta þættinum, sem sýndur var í ríkissjónvarpinu, sást Simon Bolivar taka á móti Chavez í himnaríki. 

mbl.is