Herör skorin upp gegn samkynhneigð

Samkynhneigðir njóta ekki mikilla réttinda í Rússlandi.
Samkynhneigðir njóta ekki mikilla réttinda í Rússlandi. THOMAS SAMSON

Lönd sem leyfa hjónabönd samkynhneigðra hafa mjög þröngar heimildir til að ættleiða börn frá Rússlandi samkvæmt nýju frumvarpi sem neðri deild rússneska þingsins samþykkti einróma á föstudag. Ef frumvarpið verður að lögum hefur það því meðal annars áhrif á Íslandi.

Af orðalagi frumvarpsins má ráða að gagnkynhneigð hjón gætu mögulega ennþá ættleitt, en hvorki samkynhneigðir né einhleypir fá að gera slíkt hið sama.

Mannréttindasinnar hafa gagnrýnt frumvarpið harðlega og segja nóg komið þegar farið er að skerða mannréttindi jafn illa settra borgara og munaðarleysingja, en um 115.000 börn eru nú á munaðarleysingjahælum í Rússlandi. Þá var einnig nýlega sett bann við því að Bandaríkjamenn gætu ættleitt börn frá Rússlandi, en fyrir þá breytingu voru hundruð rússneskra barna ættleidd til Bandaríkjanna á hverju ári.

Frumvarpið þarfnast enn samþykkis efri deildar þingsins ásamt undirskrift frá Vladimír Pútín Rússlandsforseta. Pútín hefur þó greint opinberlega frá stuðningi sínum við það.

Herör hefur verið skorin upp gegn samkynhneigðum í Rússlandi að undanförnu, en þingið samþykkti meðal annars nýlega frumvarp sem gerir það refsivert að vera með „áróður“ fyrir samkynhneigð og að segja að samkynhneigðir séu jafnir á við gagnkynhneigða.

mbl.is