Stúlkan með „útblásna höfuðið“ gengist undir tvær aðgerðir

Indverskir læknar hafa nú gert tvær aðgerðir á höfði lítillar stúlku en höfuð hennar blés út vegna sjaldgæfs sjúkdóms. Foreldrarnir höfðu ekki efni á aðgerðinni en í kjölfar umfjöllunar um mál hennar söfnuðust fjármunir.

Læknarnir þurftu að endurbyggja höfuðkúpu stúlkunnar og segja þeir aðgerðina hafa tekist vel. Höfuð stúlkunnar hafði tvöfaldast að stærð.

Seinni aðgerðin tók fjórar klukkustundir. Stúlkan sem heitir Roona Begum er aðeins eins árs gömul. Í fyrri aðgerðinni var vökvi tekinn frá heila hennar. Sú aðgerð er talin hafa bjargað lífi hennar.

Taugalæknirinn Sandeep Vaishya segir enduruppbygging á höfuðkúpunni hafi gengið vel.

Roona fæddist með vatnshöfuð sem gerði það að verkum að vökvi safnaðist upp við heila hennar.

Ummál höfuðs hennar var orðið 94 sentímetrar og vökvinn olli gríðarlegum þrýstingi á heilann. Hún gat ekki setið upprétt eða skriðið.

Eftir fyrri aðgerðina minnkaði ummál höfuðs hennar niður í um 60 sentímetra og í seinni aðgerðinni var það minnkað ennfrekar.

Þrír lækna framkvæmdu aðgerðina. Skáru þeir höfuðkúpuna í sundur og færðu beinin þéttar saman.

Lýtalæknir sem einnig kom að aðgerðinni segist aldrei hafa séð neitt þessu líkt. Hann segir að þegar höfuðkúpan hafi verið opnuð hafi beinflísar sést á floti í vökva við heila litlu stúlkunnar. 

Vegna vökvasöfnunarinnar höfðu bein höfuðkúpunnar þrýsts í sundur um 7,6 sentímetra. 

Nú er mest hætta á sýkingum og munu læknarnir fylgjast náið með stúlkunni næstu vikur. Þeir telja að stúlkan þurfi ekki að fara í fleiri aðgerðir á höfðinu.

Eftir að mál Roonu litlu komst í fréttir bauðst sjúkrahúsið til að greiða fyrir aðgerðir hennar. Þá hafa margir styrkt fjölskylduna.

Tveir norskir háskólanemar hófu söfnun á netinu og hafa nú  þegar safnað 57 þúsund bandaríkjadölum eða um 7 milljónum króna. Verður féð nýtt til endurhæfingar Roonu.

Hér má sjá netsíðuna þar sem söfnunin fer fram.

Frétt mbl.is: Stúlkan með „útblásna höfuðið“ þarfnast kraftaverks

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert