Fundu 60 múmíur í grafhýsi

Jarðneskar leifar Wari-prinsessu.
Jarðneskar leifar Wari-prinsessu. AFP

Fornleifafræðingar frá Póllandi og Perú hafa fundið 60 múmíur og ýmsa merka muni í grafhýsi norður af borginni Líma í Perú. Í uppgreftrinum fundust einnig um 1.200 gullpeningar.

Talið er að grafhýsið sé yfir 1.000 ára gamalt og tengist Wari-fólki sem áður bjó á þessu svæði.

„Þetta þykir einstakur fundur,“ hefur AFP-fréttaveitan eftir Giersz Milosz hjá Háskólanum í Varsjá en þetta mun vera í fyrsta skipti sem gröf af þessu tagi finnst í Perú. Milosz segir mjög lítið vera vitað um Wari-fólkið.

Grafhýsið fannst á svæði sem kallast El Castillo sem staðsett er um 300 km norður af borginni Líma. Er þetta í þriðja sinn frá árinu 2010 sem fornleifafræðingar frá Póllandi og Perú taka höndum saman og vinna að uppgreftri.

Samkvæmt AFP-fréttaveitunni var grafhýsið á um tveggja metra dýpi og þurfti að moka um 33 tonnum af jarðvegi ofan af því áður en hægt var að komast inn í það. Þrjár prinsessur voru á meðal þeirra sem fundust. Líklegt þykir að þær hafi verið eiginkonur Wari-höfðingja.

Flestar múmíurnar voru af konum og voru þær grafnar lóðrétt en vísindamenn segja það til marks um stöðu þeirra í samfélaginu.

Múmíur kvennanna voru þaktar skartgripum úr gulli og silfri. Við hlið þeirra voru stórar krukkur fullar af gersemum.

mbl.is