Val á milli lífs og dauða

Innflytjendur frá Mið-Ameríku í Mexíkó eiga oft fáa úrkosti þegar þeir koma til Mexíkó á leið sinni til Bandaríkjanna þar sem þeir vænta bættra kjara. Stundum stendur valið á milli lífs eða dauða.

Mexíkóskir landgönguliðar handsömuðu á mánudag Miguel Angel Trevino Morales, leiðtoga Zetas-fíkniefnahringsins, í borginni Nuevo Laredo í Tamaulipas, nærri Texas.

Zetas-glæpasamtökin eru ein valdamestu glæpasamtök Mexíkó og hafa verið tengd við suma af hrottalegustu glæpum fíkniefnastríðsins í landinu en Trevino er sjálfur þekktur fyrir að drekkja fórnarlömbum sínum í eldsneyti og kveikja í.

Trevino er hæst setti fíkniefnabaróninn sem yfirvöld hafa handsamað frá því að Enrique Pena Nieto tók við forsetaembætti. Í stjórnartíð forvera hans, Felipe Calderon, sem setti þúsundir hermanna í að berjast gegn fíkniefnasamtökum, voru 24 af 37 eftirlýstustu fíkniefnaforingjunum handsamaðir eða drepnir, en á sama tíma, frá 2006-2012, voru framin fleiri en 70 þúsund morð í landinu í tengslum við fíkniefnaviðskipti.

Pena Nieto hefur heitið því að berjast gegn ofbeldi í Mexíkó en Stratfor, öryggisráðgjafarfyrirtæki í Texas, telur líklegt að ofbeldi muni aukast í Nuevo Laredo, höfuðvígi Zetas, í kjölfar handtöku Trevino, þegar baráttan um að fylla tómið sem hann skilur eftir sig hefst.

Hér áður áttu innflytjendur sem komu frá löndum eins og Hondúras, El Salvador og fleiri ríkjum Mið-Ameríku á hættu að vera rænt við komuna til Mexíkó af liðsmönnum glæpagengja. Fjölskyldur þeirra voru síðan krafðar um lausnarfé ef þær vildu fá að sjá viðkomandi á lífi á ný.

Nú reyna glæpagengin að fá innflytjendurna til liðs við sig og ef þeir hafa rausnarlegu boði glæpasamtakanna er allt eins víst að dauðinn bíður þeirra. En margir láta freistast því oft bíður þeirra ekkert annað dauðinn hvort sem er þar sem þeir komast aldrei á áfangastað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert