Alvarleg geislun frá Fukushima

Kjarnorkueftirlitsstofnun Japans vill að viðvörunarstig við kjarnorkuverið í Fukushima verði hækkað úr einum í þrjá eftir að geislavirkt vatn lak úr geymslutanki við verið á mánudag.

Atvikið var í upphafi skilgreint sem 1 á alþjóðlegum skala sem er frá 1-7. Kjarnorkueftirlitsstofnunin telur hins vegar að lekinn sé það alvarlegur að skilgreina ætti atvikið af stærðargráðunni 3. Geislunin sé mjög hættuleg mönnum.

Á mánudaginn láku um 300 tonn af mjög geislavirku vatni úr geymslutanki við Fukushima út í jarðveginn. Ekki hefur enn tekist að koma algerlega í veg fyrir lekann.

Kjarnorkuverið í Fukushima stórskemmdist árið 2011 þegar flóðbylgja skall á því. Í kjölfarið varð kælikerfi þriggja kjarnaofna óvirkt og þeir skemmdust.

Mikið magn af vatni hefur verið notað til að kæla kjarnaofnana, en það verður til þess að vatnið verður geislavirkt og koma verður því fyrir í sérstökum tönkum. Einn af þessum tönkum bilaði á mánudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert