Dæmd í fangelsi fyrir rangar sakargiftir

mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Þýskur dómstóll dæmdi í dag tæplega fimmtuga konu í  fimm og hálfs árs fangelsi fyrir að saka fyrrum karlkyns samstarfsmann sinn með röngu um að hafa nauðgað sér. Maðurinn var í kjölfarið dæmdur og sat í fimm ár á bak við lás og slá.

Fram kemur á fréttavefnum Thelocal.de að konan hafi sakað manninn um nauðgun árið 2002 en þau voru þá bæði kennarar við sama skólann. Maðurinn sat af sér dóminn og var síðan sýknaður af sakargiftum árið 2011. Hann lést ári síðar vegna hjartabilunar á heimili sínu á Saarland þar sem hann lifði á atvinnuleysisbótum.

Dómarinn í málinu sagði að konan hefði beitt manninn óréttlæti en fram kom við meðferð málsins að hún hefði litið á manninn sem samkeppnisaðila innan skólans þar sem þau störfuðu. Konan hefur hins vegar haldið fast við frásögn sína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert