ESB boðar refsiaðgerðir gegn Króatíu

Viviane Reding, dómsmálastjóri ESB.
Viviane Reding, dómsmálastjóri ESB. AFP

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hyggst grípa til refsiaðgerða gegn Króatíu fyrir að brjóta gegn trausti sambandsins. Málið snýst um að króatísk stjórnvöld ákváðu þremur dögum fyrir inngöngu landsins í ESB 1. júlí síðastliðinn við innleiðingu á sameiginlegri handtökuskipun sambandsins að hún næði ekki til glæpa sem framdir voru fyrir árið 2002.

Ákvörðunin kom í kjölfar þess að Þjóðverjar fóru fram á framsal Króatans Josips Perkovic en hann er fyrrverandi yfirmaður öryggismála í valdatíð kommúnista sem talinn er hafa átt þátt í pólitísku morði sem framið var í Þýskalandi. Dómsmálastjóri Evrópusambandsins, Viviane Reding, staðfesti við fjölmiðla í dag að gripið yrði til refsiaðgerða gegn Króötum vegna málsins. Vinna hefði hafið við það síðastliðinn föstudag en aðgerðirnar gætu meðal annars falist í því að halda eftir fjármagni sem annars hefði farið til ýmissa verkefna í landinu.

Fram kemur á fréttavefnum Euobserver.com að aðildarsamningur Króatíu innihaldi ákvæði sem heimili framkvæmdastjórn ESB að „grípa til viðeigandi aðgerða“ ef alvarlegri annmarkar séu á því að Króatar fari gangist undir löggjöf sambandsins. Króatísk stjórnvöld hafa sagt að þau gætu mögulega fylgt lögunum að fullu í júlí á næsta ári en Reding segir það ekki vera nóg. „Lögum sem hægt er að breyta nokkrum dögum áður en skrifað er undir aðildarsamning er að sama skapi hægt að breyta til baka á nokkrum dögum. Króatíska þingið er starfandi svo það ætti ekki að vera erfitt.“

Málið snerist ennfremur um traust. Króatar hafi byrjað að misnota traust ESB um leið og þeir gengu í sambandið.

Frétt Euobserver.com

mbl.is

Bloggað um fréttina