Vara við árás á Ungfrú heim

Keppendur í Miss World á Balí.
Keppendur í Miss World á Balí. AFP

Sendiráð í Indónesíu hafa varað þegna sína sem staddir eru í landinu við mögulegri árás á keppnina Ungfrú heim sem haldin er á Balí. Íslamskir öfgamenn hafa mótmælt keppninni.

Sendiráð Bandaríkjanna, Bretlands og Ástralíu eru meðal þeirra sem gefið hafa út viðvaranir.

„Sendiráðið hefur fengið upplýsingar um að öfgahópar gætu verið að undirbúa að trufla keppnina Ungfrú heim sem fram fer á Balí dagana 8.-28. september, mögulega með ofbeldi,“ segir í tilkynningu bandaríska sendiráðsins í Indónesíu.

Í tilkynningu breska sendiráðsins segir að öfgahópar hafi hótað að standa fyrir viðamiklum mótmælum til að trufla keppnina. „Öfgahóparnir gætu einnig verið að undirbúa árás á viðburðinn,“ segir þar ennfremur.

Árið 2002 gerðu íslamskir öfgahópar sprengjuárás á Balí og létust 202, margir þeirra voru útlendingar.

Mikil áhersla hefur verið lögð á það undanfarin ár að knésetja öfgahópa og það hefur skilað góðum árangri.

Mótmæli hafa farið fram í Indónesíu síðustu daga vegna keppninnar og þar er því meðal annars haldið fram að hún sé klámfengin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert