Kjarnorkumál verði rædd og leyst með friðsömum hætti

Barack Obama Bandaríkjaforseti segir að sáttaviðhorf íranskra stjórnvalda sé grundvöllur sem byggja megi á til að komast að samkomulagi um kjarnorkuáætlun Írans. Hann segir að Bandaríkin vilji finna lausn með friðsömum hætti.

Obama lét ummælin falla á fundi allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna í New York í dag. Hann segir að nú hafi aðgerðir fylgt orðum sem eru gagnsæ og hægt sé að sannreyna.

Obama átti nýverið í bréfaskriftum við Hassan Rowhani, sem var kjörinn forseti Írans í sumar, þar sem kjarnorkumálin voru rædd. 

Bandaríkjaforseti hefur jafnframt kallað eftir því að SÞ samþykki harðorða álytkun varðandi efnavopn Sýrlandsstjórnar. Hann segir að markmið slíkrar ályktunar eigi að vera að sannreyna að ríkisstjórn Bashars al-Assads, forseta Sýrlands, standi við gefin loforð um að fjarlægja eða eyða öllum efnavopnum í landinu.

Obama segir ennfremur, að það sé móðgun við almenna skynsemi og lögmæti SÞ að halda því fram að einhver annar en Sýrlandsstjórn hafi staðið á bak við efnavopnaárásina í Damaskus 21. ágúst sl. en eftirlitsmenn á vegum SÞ hafa staðfest að slík árás hafi átt sér stað. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert