Fundu líkamsleifar við flakið

AFP

Ítalskir kafarar sem leituðu tveggja líka sem enn er saknað eftir að skemmtiferðaskipið Costa Concordia strandaði í fyrra, hafa fundið líkamsleifar við flakið. 32 fórust er skipið strandaði við eyjuna Giglio fyrir tæpum tveimur árum síðan.

„Við leit í sjónum við miðju skipsflaksins fundu kafarar frá strandgæslunni og lögreglunni líkamsleifar sem enn á eftir að bera kennsl á,“ segir í yfirlýsingu.

Þrjátíu lík fundust eftir strand skipsins en tveggja hefur verið saknað, Ítalans Mariu Grazia Trecarichi og Indverjans Russel Rebello.

Leitin að líkum þeirra hófst er skipið var sett á réttan kjöl í síðustu viku. 

Enn er réttað í máli skipstjórans sem talinn er hafa af gáleysi siglt skipinu í strand.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert