Ekki viðræður nema hótunum verði hætt

Forseti Bandaríkjanna, Barack Obama, hefur lýst því yfir að hann er reiðubúinn til þess að hefja viðræður við repúblikana varðandi fjárlög næsta árs en ekki nema þeir láti af hótunum.

Segir hann að repúblikanar fái ekki að komast upp með það að krefjast lausnargjalds fyrir að vinna vinnuna sína. Hvetur hann stjórnarandstöðuna til þess að láta af kröfum sínum og vinna með stjórnvöldum.

Nánast öllum ríkisstofnunum í Bandaríkjunum var lokað eða starfsemi þeirra mjög takmörkuð fyrir viku síðan vegna þess að ekki náðist samkomulag um fjárlög næsta ár.

Repúblikinn John Boehner, forseti fulltrúadeildarinnar, hvetur Obama til þess að hefja viðræður á ný svo hægt verði að komast að samkomulagi um fjárlögin. Hann segist vera vonsvikinn með að Obama neiti að ræða við þá og það væri óásættanlegt að forsetinn neitaði að tala við repúblikana nema þeir gæfust upp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert