Færeyjar eru besti staðurinn til þess að sjá næsta sólmyrkva þar sem tunglið mun skyggja að fullu á sólina séð frá jörðu en það gerist 20. mars 2015.
Fram kemur á fréttavef bandaríska dagblaðsins The Los Angeles Times að áhugafólk um sólmyrkva sem heimsæki Færeyjar um það leyti geti vænst þess að sjá sólmyrkvann í samtals 2 mínútur og 9 sekúndur ef aðstæður eru góðar.
Þessar upplýsingar eru fengnar frá ferðaskrifstofunni Great Canadian Travel Co. sem ætlar að bjóða upp á sérstaka ferð til Færeyja vegna sólmyrkvans. Flogið verður frá Íslandi og stoppað í Færeyjum í fjóra daga þar sem eyjarnar verða skoðaðar og síðan komið sér fyrir og horft á sólmyrkvann þegar hann skellur á undir leiðsögn stjörnufræðings.
Þá verður snúið aftur til Íslands og næstu sjö dagar nýttir til þess að ferðast um suðurhluta landsins, Þingvelli og Snæfellsnes.