Þreifingar í gangi um lausn

Talsmenn Baracks Obama, Bandaríkjaforseta, sögðu í dag að forsetinn væri reiðubúinn að ræða hugmyndir repúblikana um að hækka heimild bandaríska ríkisins til skuldsetningar til skamms tíma en aðeins ef ekki væru sett skilyrði fyrir því í þeim tilgangi að beita hann kúgunum.

Hins vegar væri Obama ekki reiðubúinn að samþykkja að hefja viðræður um fjárlög til lengri tíma litið sem skilyrði fyrir því að rekstur bandaríska ríkisins færðist til fyrra horfs á ný. Hins vegar sögðu talsmenn forsetans að hann fagnaði því að hreyfingar væru á málinu og að vilji væri til þess að koma í veg fyrir að Bandaríkin lentu í greiðsluþroti. Semja þarf um málið fyrir 17. október til þess að koma í veg fyrir það.

Lögð var þó áhersla á að Obama vildi frekar semja um málið til lengri tíma en skamms tíma. Búist er við að forsetinn fundi í kvöld með forystumönnum repúblikana þar sem honum veða kynntar hugmyndir þeirra sem gera ráð fyrir því að heimild bandaríska ríkisins til skuldsetningar verði framlengd um sex vikur.

Barack Obama, Bandaríkjaforseti.
Barack Obama, Bandaríkjaforseti. AFP
mbl.is