30 milljónir þræla í heiminum

Um 30 milljónir manna í heiminum búa við nútíma þrældóm. Flest er fólk í þrælkun á Indlandi. 4% íbúa Afríkuríkisins Máritaníu eru í fjötrum einhvers konar þrælkunar.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Walk Free stofnunarinnar. Hún segir þrældóm „falinn glæp“.

Forstjóri stofnunarinnar segir að margar ríkisstjórnir vilji ekki kannast við vandann.

„En þær sem að vilja vinna með okkur, við erum tilbúin til þess að kanna leiðir til takast á við nútímaþrælahald,“ segir forstjórinn Nick Grono.

Stofnunin var stofnuð í maí á síðasta ári og er með starfsstöð sína í Perth í Ástralíu. Hillary Clinton og Tony Blair eru opinberir stuðningsmenn hennar.

Stofnunin skilgreinir þrælkun m.a. sem nauðgunarhjónabönd, sölu og misnotkun á börnum og mansal auk vinnuþrælkunar.

„Mörgum kemur á óvart að þrælahald finnist enn í heiminum,“ segir Grono. Hann segir nútímaþrælahald einkennast af því sama og á öldum áður.

„Fólki er stjórnað með ofbeldi. Það er blekkt eða þvingað til starfa eða í aðstæður þar sem það misnotað fyrir peninga. Það fær ekki greitt fyrir vinnu sína og það getur ekki komið sér út úr aðstæðunum þó að það kjósi það.“

Stofnunin segir mjög erfitt að fá gögn um þrælkun. Glæpurinn sé vel falinn, líkt og heimilisofbeldi.

Moldavía er eina Evrópulandið meðal þeirra tíu landa þar sem þrælahald er mest. Ástandið er einna verst í Máritaníu. „Þar fæðast börn bókstaflega inn í þrælahald.“

Grono bendir þó á að þrælahald finnist í öllum löndum heimsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert