Öldungadeildin nær samkomulagi

Tíminn er naumur.
Tíminn er naumur. AFP

Þingmenn bandarísku öldungadeildarinnar hafa náð samkomulagi um frumvarp sem ætlað er að hækka skuldaþak ríkissjóðs Bandaríkjanna og koma stjórnkerfinu aftur í gang.  

Fram kemur í bandarískum fjölmiðlum, að fulltrúadeild Bandaríkjaþings, sem er undir stjórn repúblikana, muni fyrst greiða atkvæði um frumvarpið. Þetta er leið sem þingið hefur til að hraða því að frumvarpið nái í gegn og verði samþykkt. 

Mikil óvissa hefur ríkt í Bandaríkjunum vegna deilna demókrata og repúblikana varðandi fjárlög næsta árs. Matsfyrirtæki hefur m.a. varað við þeim möguleika að lánshæfiseinkunn bandaríska ríkisins verði lækkuð. 

Bandarísk yfirvöld verða að hækka skuldaþakið, sem nú stendur í 16,7 billjónum dala fyrir morgundaginn annars blasir gjaldþrot við.

„Mér skilst að [leiðtogar öldungadeildarinnar] hafi komist að samkomulagi,“ sagði Kelly Ayotte, öldungadeildarþingmaður repúblikana, í samtal við AP-fréttastofuna í dag.

Stjórnmálamenn, bankastarfsmenn og hagfræðingar hafa varað við því að greiðslufall Bandaríkjanna myndi hafa alvarlegar efnahagslegar afleiðingar í för með sér á heimsvísu.

„Fólk er orðið dauðþreytt á þessu,“ sagði Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, í samtali við sjónvarpsstöðina KMEX í Los Angeles. Forsetinn hefur neitað að gefa eftir í deilu sinni við repúblikana sem krefjast þess m.a. að Obama fresti gildistöku nýrrar löggjafar í heilbrigðismálum. 

Búist er við því að Harry Reid, leiðtogi demókrata í öldungadeildinni, og Mitch McConnell, leiðtogi repúblikana, muni fara yfir stöðuna með samstarfsmönnum sínum í dag. 

Samkomulagsdrögin fela í sér að hækka skuldaþak ríkissjóðs til 7. febrúar og að ríkisstofnanir fái fjárheimildir til þriggja mánaða. Þá er talað um að minniháttar breytingar verði gerðar á heilbrigðislöggjöf forsetans. 

Öldungadeildin mun koma aftur saman kl. 12 að hádegi að staðartíma í Washington (kl. 16 að íslenskum tíma). 

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, segir landsmenn búna að fá nóg …
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, segir landsmenn búna að fá nóg sig fullsadda af þrætunni. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina