Öldungadeildin samþykkti tillöguna

AFP

Öldungadeild bandaríska þingsins hefur samþykkt tillögu leiðtoga demókrata og repúblikana um tímabundnar fjárheimildir ríkisins og hækkun skuldaþaksins. Tillagan fer nú til afgreiðslu í fulltrúadeildinni áður hún verður send forsetanum til staðfestingar. Atkvæðin í öldungadeildinni féllu þannig að 81 þingmaður studdi tillöguna en 18 höfnuðu henni.

Samkomulag leiðtoganna hljóðar upp á tímabundin fjárlög fram til 15. janúar næstkomandi og hækkun skuldaþaksins til 7. febrúar. Hljóti það samþykki beggja deilda þingsins má gera ráð fyrir að þúsundir opinberra starfsmanna, sem sendir voru í launalaust leyfi fyrir 16 dögum, snúi aftur til vinnu í lok vikunnar en forsetinn hefur þegar lýst yfir stuðningi við frumvarpið.

Repúblikanar höfðu á endanum lítið upp úr baráttu síðustu vikna en fengu það í gegn að eftirlit með því að einstaklingar sem sækja um niðurgreiðslu vegna sjúkratrygginga eigi sannarlega rétt til hennar verði hert.

Þar til í gær, miðvikudag, höfðu þeir skilyrt fjárlögin og hækkun skuldaþaksins breytingum á heilbrigðisfrumvarpi forsetans, Obamacare, og jafnvel, í tilfelli teboðsarms flokksins, afnámi löggjafarinnar í heild.

 Mitch McConnell, leiðtogi repúblikana í öldungadeildinni, sagði í gær að flokkurinn væri staðfastur í því að berjast gegn Obamacare en í dag vonuðust þeir eftir þeim létti að geta opnað á ný opinberar stofnanir og forðað ríkinu frá greiðslufalli. „Hreinskilnislega er þetta er mun minna en mörg okkar hefðu vonast eftir," sagði hann um samkomulagið. "En þetta er mun betra en sumir höfðu sóst eftir.“

Samkvæmt samkomulaginu verður einnig komið á laggirnar sérstakri nefnd um útgjöld ríkisins, sem verður leidd af formönnum fjárlaganefnda beggja þingdeilda og er ætlað að skila af sér tillögum í desember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert