Dauðvona stúlku dreymdi um Ísland

Diane-35 er gefið til að minnka unglingabólur en er einnig …
Diane-35 er gefið til að minnka unglingabólur en er einnig tekið sem getnaðarvörn.

Nokkrum vikum áður en að hin kanadíska Marit McKenzie lést var vini hennar og fjölskyldu farið að gruna að eitthvað væri að. En enginn vissi að líkami hennar var smám saman að gefa sig.

 Marit var venjulega kát og hress. Hún var á fyrsta ári í Háskólanum í Calgary og hélt lista yfir þá staði í heiminum sem hún þráði að heimsækja. Einn af þeim var Ísland. Þar vildi hún sjá „fossa guðanna“ eins og hún orðaði það.

 En skyndilega átti hún í erfiðleikum með einfalda hluti, svo sem að ganga. Hún varð fljótt þreytt og meira segja að tala í símann og senda sms var erfitt.

 Viku áður en hún lést fór móðir hennar með stúlkuna, sem var átján ára til læknis. Blóðprufur leiddu ekkert í ljós. Nú er talið að lyf sem hún fékk við unglingabólum, Diana-35, gæti hafa dregið hana til dauða.

 Heimilislæknirinn hennar segir í samtali við Toronto Star að hann hafi ekki tengt þreytuna við lyfjagjöfina en læknirinn hafði ávísað lyfinu. Hins vegar sé þekkt að lyfið geti valdið blóðtappa.

 Kærasti stúlkunnar segist hafa tekið eftir breytingum hjá henni. Hann segir hana hafa verið orkulausa. Þau hafi hætt að fara saman á línuskauta og í bíó en þess í stað setið saman og spjallað.  „Hún var alltaf þreytt,“ segir hann.

 Marit hringdi í föður sinn í 28. janúar í ár. Þá var hún í svefnherbergi sínu en gat ekki andað og hafði hjartsláttartruflanir. Foreldrarnir óku henni strax á bráðamóttöku og þar stöðvaðist hjarta hennar fjórum sinnum.

 Stúlkan fór í sneiðmyndatöku en læknirinn sá ekkert athugavert. Læknanemi sagði þá að hún væri að taka getnaðarvarnarpillu. Þó að Diane-35 sé ekki leyft sem getnaðarvarnarlyf er því oft ávísað sem slíku. Síðar átti eftir að koma í ljós að hún var með blóðtappa við lungun. Hún fór í aðgerð og sólarhring seinna komst hún til meðvitundar. En  aðeins fáum tímum síðar var hún aftur orðin mjög veik og nú kom í ljós að hún var með mikla blæðingar í heilanum. Morguninn eftir var hún úrskurðuð látin.

Engin krufning var framkvæmd en foreldra hennar grunar að kenna megi lyfinu, Diane-35, um. Þau vilja að fólk geri sér grein fyrir að lyfið er gefið sem getnaðarvörn, þó að það megi ekki samkvæmt kanadískum lyfjalögum.

Framleiðandi lyfsins er þýska lyfjafyrirtækið Bayer.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert