Skátaforingjar reknir fyrir náttúruspjöll

Fagnaðarlæti eftir að hafa „breytt
Fagnaðarlæti eftir að hafa „breytt" þjóðgarðinum með skemmdarverkum. Skjáskot/Youtube

Tveimur bandarískum skátaforingjum hefur verið vikið úr starfi eftir að þeir urðu uppvísir að náttúruspjöllum í Goblin Valley þjóðgarðinum í Utah. Þeir voru þar á ferð með tveimur flokkum 14-16 ára gamalla skáta.

Skátaforinginn Dave Hall tók myndskeið af því þegar félagi hans, skátaforinginn Glenn Taylor ýttu 170 milljón ára gömlum steini um koll í þjóðgarðinum. Eftir á fögnuðu þeir báðir athæfinu.

„Við höfum nú gert breytingar á Goblin-dal. Nýr Goblin-dalur lítur nú dagsins ljós með þessu grjóti sem herra vöðvatröll hér ýtti um koll,“ segir Hall hlæjandi framan í myndavélina eftir að steininum var velt.

Hafa fengið líflátshótanir

Bandaríska skátahreyfingin hefur fordæmt eyðilegginguna og segja hegðun skátaforingjanna vítaverða. Allir bandarískir skátaforingjar hafa í kjölfarið verið beðnir um að hafa í huga þá meginreglu skátahreyfingarinnar um að skilja engin ummerki eftir í náttúrunni.

Hall og Taylor halda því fram að steinninn hafi verið laus og hættulegur göngufólki. Þeir hafa þó viðurkennt að réttara hefði verið að hafa samband við þjóðgarðsverði. 

Athæfi þeirra fór eins og eldur í sinu um netið og segjast þeir hafa fengið líflátshótanir í kjölfarið víðsvegar að úr heiminum.

Talsmaður þjóðgarða Utah ríkis segir í samtali við BBC að mennirnir verði hugsanlega kærðir. Upptökuna má sjá hér að neðan:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert