Keyptu róma-barn á Grikklandi

AFP

Lögreglan í Aþenu hefur handtekið grískt par sem grunað er að hafa keypt róma-barn fyrir 4.000 evrur eða um 700 þúsund krónur. 

Karlmaðurinn sem er 53 ára gamall og eiginkona hans sem er 48 ára, sögðu lögreglunni að þau hefðu fengið stúlkubarn frá konu sem tilheyrir róma-fólki. Stúlkan hafi verið nokkurra vikna er þau fengu hana í mars. Konan reyndi svo að skrá barnið sem sitt eigið. Einkaættleiðingar eru leyfilegar á Grikklandi svo lengi sem ekki er greitt fyrir börnin.

Hæstiréttur Grikklands hefur fyrirskipað að endurskoða skuli skráningu nýfæddra barna í landinu. Mikil umræða um málið hefur skapast eftir að Maria, lítil ljóshærð stúlka fannst á meðal róma-fólks í síðustu viku. Talið er að margir misnoti barnabætur í landinu. Hjá parinu sem Maria bjó hjá voru skráð fjórtán börn og fékk parið bætur vegna þeirra allra. 

Nú er talið að Maria sé búlgörsk en beðið er niðurstöðu DNA-rannsóknar til að fá það staðfest.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert