Réttarhöld að hefjast í hlerunarmáli

Andy Coulson og Rebekah Brooks
Andy Coulson og Rebekah Brooks AFP

Fyrrverandi yfirmaður News International, Rebekah Brooks, og Andy Coulson, fyrrverandi almannatengill forsætisráðherra Bretlands, munu koma fyrir dómara í dag en réttarhald í hlerunarmálinu svonefnda hefst í Lundúnum í dag. Fastlega er gert ráð fyrir að málið verði rekið fyrir dómi fram að páskum, samkvæmt frétt Guardian í dag.

Brooks og sjö aðrir, þar á meðal eiginmaður hennar, Charlie, eru ákærð í málinu sem snýst um ólöglega starfshætti vikuritsins News of the World, meðal annars símhleranir og innbrot í talhólf, auk ásakana um að lögreglumönnum hafi verið mútað.

Öll átta hafa lýst því yfir að þau séu saklaus af ákærum en um 100 vitni hafa verið kölluð til í málinu sem er eitt það umfangsmesta sem komið hefur upp í breska dómskerfinu í langan tíma.

Áður en David Cameron forsætisráðherra réð Coulson til starfa var hann ritstjóri News of the World. Brooks var einnig ritstjóri blaðsins áður en hún var ráðin yfirmaður News International fjölmiðlafyrirtækisins.

mbl.is