Fríverslunarviðræður hugsanlega í hættu

Viviane Reding, dómsmálastjóri ESB.
Viviane Reding, dómsmálastjóri ESB. AFP

Dómsmálastjóri Evrópusambandsins, Viviane Reding, hefur varað við því að viðræður á milli sambandsins og Bandaríkjanna um fríverslunarsamning kunni að vera í hættu vegna upplýsinga um njósnir Bandaríkjamanna í Evrópu.

Fram kemur í frétt AP-fréttaveitunnar að það sé skoðun háttsettra ráðamanna í Evrópusambandinu að njósnamálið hafi „splundrað“ því trausti sem þurfi að vera fyrir hendi til þess að viðræðurnar geti haldið áfram. „Til þess að svo metnaðarfullar og flóknar viðræður geti skilað árangri þarf að ríkja traust á milli beggja aðila,“ sagði Reding í ræðu sem hún flutti í Yale-háskóla í Bandaríkjunum í gær.

Búist er við að Evrópusambandið fari í það minnsta fram á að bandarísk stjórnvöld styrki verulega löggjöf sína um friðhelgi einkalífsins og veiti neytendum mun meira vald yfir því hvernig fyrirtæki notfæri sér persónuleg gögn þeirra. Ennfremur að slík réttindi nái einnig til ríkisborgara Evrópusambandsins og að þeir geti jafnvel kært bandarísk fyrirtæki fyrir þarlendum dómstólum.

Fram kemur í fréttinni að Evrópusambandið hafi lengi gert slíkar kröfur til Bandaríkjastjórnar en eftir að bandaríski uppljóstrarinn Edward Snowden hafi varpað ljósi á njósnastarfsemi Þjóðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna (NSA) í Evrópu hafi sambandið lagt enn ríkari áhersla á kröfur sínar í tengslum við fríverslunarviðræðurnar. Haft er eftir Reding að verði Bandaríkjamenn ekki við þeim gæti það orðið til þess að Evrópuþingið myndi stöðva viðræðurnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert