Telja öfgahópa bera ábyrgð

Grísk yfirvöld telja að öfgahópur standi á bak við skotárás fyrir utan höfuðstöðvar nýnasistaflokksins Gullinnar dögunar en tveir létust og sá þriðji særðist í árásinni. Árásin var gerð í gær í Aþenu.

Lögreglan rannsakar nú fjölmörg öfgasamtök sem hafa í gegnum tíðina staðið að árásum á stjórnmálamenn, banka og fjölmiðla.

Móðir þess særða, Alexandros Gerontas 29 ára, hvetur grísku þjóðina til þess að standa saman og binda endi á blóðbaðið í landinu. Í sjónvarpsviðtali lýsti hún syni sínum sem friðsömum manni. Hann liggur nú alvarlega særður á sjúkrahúsi eftir skotárásina. Að hennar sögn heimsótti hann skrifstofur Gullinnar dögunar af og til en var þar ekki daglegur gestur.

Gullin dögun er þriðji stærsti stjórnmálaflokkur landsins. Undanfarið hefur lögregla rannsakað starfsemi flokksins og handtekið nokkra liðsmenn hans, þar á meðal þingmenn í tengslum við glæpastarfsemi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert