Skipstjórinn datt ekki frá borði

Skipstjórinn Francesco Schettino fyrir miðri mynd.
Skipstjórinn Francesco Schettino fyrir miðri mynd. AFP

Starfsmaður sem var um borð í skemmtiferðaskipinu Costa Concordia er það strandaði í fyrra segir að skipstjórinn hafi stokkið frá borði en ekki dottið frá borði og í björgunarbát líkt og hann heldur sjálfur fram. Þetta kom fram við réttarhöld yfir skipstjóranum í dag.

„Við fundum björgunarbát. Ég stokk um borð, Francesco Schettino hafði þá þegar stokkið um borð í hann,“ sagði starfsmaðurinn Stefano Iannelli við réttarhöldin í dag. Skipstjórinn Schettino hefur verið ákærður fyrir manndráp og að yfirgefa skipið. Þá er hann einnig ákærður fyrir að hafa valdið strandi þess. 32 létust er skipið strandaði.

Vitnisburður starfsmannsins kemur heim og saman við þá kenningu saksóknarans að skipstjórinn sem hefur verið uppnefndur Heigull skipstjóri í ítölskum fjölmiðlum, hafi yfirgefið skipið til að tryggja sitt eigið öryggi. Á meðan hafi skelfdir farþegar ekki komist frá borði.

Schettino heldur því fram að hann hafi dottið frá borði er skipið tók að halla eftir strandið. Hann hafi dottið ofan í björgunarbát.

Á hljóðupptöku sem hefur m.a. verið leikin í réttarsalnum má heyra starfsmann strandgæslunnar skipa skipstjóranum að fara aftur um borð: „Komdu þér aftur um borð, andskotinn hafi það,“ heyrist starfsmaðurinn m.a. segja. Skipstjórinn hlýddi því hins vegar ekki.

Schettino á yfir höfði sér allt að tuttugu ára fangelsi verði hann fundinn sekur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert