Með hrísgrjón og kerti í kassa

AFP

Á sama tíma og þúsundir yfirgefa eyðilegginguna eftir að ofurfellibylurinn Haiyan reið yfir Filippseyjar, streyma farþegar til eyjanna. Þetta er ekki aðeins þrautþjálfað björgunarfólk, heldur reyna ættingjar nú að komast til skyldmenna sinna. Hefur fólkið mat, lyf og vatn í farteskinu í von um aðstoða fjölskyldur sínar.

Sumir hafa ferðast yfir hálfan hnöttinn til að bjarga foreldri eða systkini, á meðan aðrir skrapa saman öllum þeim aurum sem þeir fá vegna láglaunastarfa í Manila, höfuðborg Filippseyja, auk þess sem þeir betla á götum úti og fá lán hjá vinum.

Léttir að ná loks til þorpsins

„Þetta er þorpið mitt,“ segir Nick Cantuja og snöktir þegar hún bendir að strandlengjunni þar sem ferjan sem flytur hana að borginni Ormoc leggst að höfn . „Húsið okkar er farið núna. Allt... það er farið,“ segir hún í samtali við AFP-fréttastofuna. Cantuja starfar sem bílstjóri fyrir fjölskyldu í Manila. Hún ákvað að halda til Ormoc með eins mikið og hún gat borið til að aðstoða ættingja sína sem eru bjargarlausir eftir fellibylinn.

„Það er dálítill léttir að ná til þorpsins míns,“ segir hún. „Fjölskylda mín, frændur mínir, nágrannar, þau upplifa öll hungur og þorsta.“ Hún segir að Rauði krossin hafi komið til borgarinnar í gær, en það sé ekki nóg. Catuja, sem er 37 ára gömul, fékk lánaða peninga frá vinum í Manila.

Fyrir peninganna keypti hún hrísgrjón, núðlur, sardínur, kaffi, kerti, vasaljós og ýmislegt fleira sem hún pakkaði í tvo stóra kassa sem hún hyggst færa fjórum bræðrum sínum og systrum og fjölskyldum þeirra. Þá kom hún einnig með stóra segldúka til þess að útbúa tjald.

Sameinuðu þjóðirnar segja að Haiyan hafi haft áhrif á 13 milljónir manna og tæpar tvær milljónir hafi misst heimili sín.

Neyð barnanna á Filippseyjum er mikil. Hér stendur hermaður vörð …
Neyð barnanna á Filippseyjum er mikil. Hér stendur hermaður vörð um hóp barna. AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert