7 ára barn notað sem burðardýr

Frá Taílandi.
Frá Taílandi. AFP

Taílenska lögreglan segir að sjö ára gamall drengur frá Myanmar (Búrma) hafi verið notaður sem burðardýr. Lögreglumenn komu að drengnum þar sem hann var einn og grátandi á rútustoppustöð í vesturhluta landsins. Hann var með um 10.000 afmetamíntöflur í bakpokanum sínum.

Barnið fannst sl. fimmtudagskvöld í Thong Pha Phum-hverfi Kanachanaburi-héraðinu, sem er skammt frá landamærum Taílands að Myanamar.

Lögreglumennirnir gengu að drengnum og spurðu hann spurninga, en það kom í ljós að hann kunni ekki taílensku. Þetta segir lögreglustjórinn Amnuay Pongsawat.

Hann segir að fíkniefnin hafi verið geymd í 50 plastpokum sem búið var að koma fyrir í tveimur flöskum með barnapúðri.

„Þetta er í fyrsta sinn sem við sjáum glæpaklíkur sem stunda fíkniefnasmygl nota barn sem burðardýr,“ segir Amnuay.

Talið er að frændi drengsins hafi skilið barnið eftir. 

Fyrr í þessum mánuði sögðu Sameinuðu þjóðirnar að það væri mikið áhyggjuefni hversu mikið hefði fundist af metamfetamíni á ákveðnum svæðum í Asíu. 

Í töfluformi er eiturlyfið þekkt sem yaba í Taílandi, en það þýðir „brjálaða lyfið“. Það er vinsælt með fólk sem er að skemmta sér og fyrir láglaunastarfsfólk sem reynir að hressa sig við þegar það þarf að vinna langa vinnudaga.

Taílensk yfirvöld lögðu hald á um 95 milljónir taflna í fyrra. Það var 93% aukning á milli ára. Talið er að meirihluti fíkniefnanna hafi verið framleiddur í Myanmar.

mbl.is