Óttast að yfir 7000 hafi látist

Óttast er að tala látinna á Filippseyjum geti farið yfir 7.000 í dag. Rúmur hálfur mánuður er liðinn frá því fellibylurinn Haiyan, sem er einn öflugasti í sögunni, fór yfir miðhluta landsins. Sameinuðu þjóðirnar segja að enn ríki mikil neyð á svæðinu og að bágstaddir þurfi nauðsynlega hjálp.

Ríkisstjórn landsins segir að búið sé að staðfesta að 5.235 séu látnir og þá er 1.613 saknað.

Haiyan, sem lagði stór svæði á miðhluta Filippseyja í rúst, þykir hafa valdið jafn mikilli eyðileggingu og manntjóni of flóðbylgjan sem fór yfir eyjuna Mindanao árið 1976. Þar til nú voru það mestu náttúruhamfarir sem hafa átt sér stað á Filippseyjum á sögulegum tíma, en íbúarnir eiga í baráttu við náttúruöflin á ári hverju. Þar eru fellibyljir, jarðskjálftar, flóð og eldgos tíð. 

Umfangsmikið alþjóðlegt hjálparstarf hófst eftir að Haiyan fór yfir landið og hafa fjölmörg lönd lagt sín lóð á vogarskálarnar, m.a. með því að útvega íbúum sem misstu heimili sín, sem eru yfir fjórar milljónir, mat, vatn og heilbrigðisþjónustu.

Valerie Amos, sem stjórnar hjálparstarfi SÞ, heimsótti hamfarasvæðið nýverið. Hún sagði í kjölfar heimsóknar sinnar að heimsbyggðin brygðist ekki nægilega hratt við neyðinni. 

„Það þarf að gera mun meira. Matur, hreint vatn og skjól eru forgangsmál,“ sagði Amos er SÞ óskuðu eftir að fjárframlög vegna björgunar- og hjálparstarfsins yrðu hækkuð úr 301 milljónar Bandaríkjadala í 348 milljónir dala. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert