„Mér finnst ég vera að missa vitið“

Rodico Basilides stendur við kross til minningar um fjölskyldu sína sem lést er fellibylurinn Haiyan gekk yfir Filippseyjar í byrjun mánaðarins. Hann er einn fjölmargra sem syrgja látna ástvini í kjölfar hamfaranna.

„Þetta er fyrir eiginkonu mína, Gladys, og fjögur börn okkar. Aldan hreif þau með sér,“ segir Basilides er hann stendur við krossinn sem er búinn til úr tveimur spýtum sem hnýttar hafa verið saman með grænu snæri. Krossinn stendur þar sem heimili fjölskyldunnar stóð áður.

Er Basilides yfirgefur rústir heimilis síns hittir hann Jovelyn Taniega, vinkonu sína sem missti eiginmann sinn og sex börn sín í fellibylnum.

Taniega er enn í miklu áfalli. Hún hafði einnig verið að vitja rústa heimilis síns. Þannig vildi hún reyna að finna einhvern frið í sál sinni.

„Ég er ein núna. Það er mjög sárt, ég sakna fjölskyldu minnar,“ segir hún og skýlir sjálfri sér fyrir rigningunni með regnhlíf. „Mér finnst ég vera að missa vitið.“

Nú þegar neyðarhjálp hefur borist til flestra svæða og byrjað er að ryðja burt braki húsa sem urðu fellibylnum að bráð, tekur við áfallahjálp fyrir þá sem misstu ástvini í náttúruhamförunum. Áfallið er gríðarlegt fyrir mjög marga og það á eftir að taka langan tíma fyrir sárin að gróa.

Staðfest er að yfir 5.200 týndu lífi í fellibylnum. Enn er að minnsta kosti 1.600 manns saknað.

Fjórar milljónir manna eru án heimilis en talið er að fellibylurinn hafi með einum eða öðrum hætti haft mikil áhrif á líf um tíu milljóna Filippseyinga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert