4 ára fangelsi fyrir PIP-púðana

Jean-Claude Mas, stofnandi og eigandi PIP-brjóstabúðaframleiðandans, var í dag dæmdur í 4 ára fangelsi fyrir svik. Dómstóllinn, í Marseille í Frakklandi, dæmdi hann einnig til að greiða 75.000 evru sekt, sem nemur rúmum 12 milljónum króna.

Talið er að um 300.000 konur í 65 löndum um allan heim, þar á meðal Íslandi, hafi fengið gallaða brjóstapúða frá PIP (Poly Implant Prothese). Fyrirtækið notaði iðnaðarsílikon í púðana, sem láku mun oftar en aðrir brjóstapúðar.

Málið kom upp árið 2011 þegar frönsk heilbrigðisyfirvöld mæltust til þess að konur með PIP-púða létu fjarlægja þá úr brjóstum sínum.

Fjórir aðrir fyrrverandi framkvæmdastjórar PIP voru einnig fundnir sekir í dag og dæmdir til refsingar.

Dómsmálið var eitt það stærsta í franskri sögu enda voru yfir 5000 konur skráðar sem sóknaraðilar.

Jean-Claude Mas stofnandi PIP við dómshúsið í Marseille í dag.
Jean-Claude Mas stofnandi PIP við dómshúsið í Marseille í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert