Pattstaðan um fjárlögin rofin

Paul Ryan og Patty Murray kynntu samkomulagið í dag.
Paul Ryan og Patty Murray kynntu samkomulagið í dag. AFP

Samkomulag hefur náðst í fjárlaganefndum efri og neðri deilda Bandaríkjaþings um fjárlög næsta árs, en fulltrúar beggja nefnda komu saman í dag í fyrsta sinn frá því í október þegar ríkisstofnun var lokað og hundruð þúsunda opinberra starfsmanna voru send í launalaust leyfi.

Báðar deildir Bandaríkjaþings þurfa nú að leggja formlega blessun sína yfir samkomulagið og að sögn fréttaskýrenda er ekki við öðru að búast en að fjárlögin hljóti samþykki. Þetta kemur fram á vef BBC.

Með þessu verður starfsemi ríkisins fjármögnuð til næstu tveggja ára, auk þess sem dregið verður úr fjárlagahallanum sem nemur allt að 23 milljörðum dala. 

Samkomulagið leiðir ennfremur til þess að ekki gerist þörf á að loka ríkisstofnunum þann 15. janúar nk., en þá hefur fyrra samkomulag um fjármögnun ríkisins runnið sitt skeið.

Paul Ryan, þingmaður Repúblikanaflokksins og formaður fjárlaganefndar fulltrúardeildarinnar, segir að nýja samkomulagið dragi úr útgjöldum á skynsamlegri hátt en áður. 

Patty Murray, öldungadeildaþingmaður Demókrataflokksins og formaður fjárlaganefndar efri deildarinnar, segir að pattstaðan hafi verið rofin með þverpólitískri sátt. Ryan og Murray voru sérstaklega kölluð til að vinna að þessari sátt í kjölfar neyðarástandsins sem skapaðist í október sl. 

Ryan kveðst vera bjartsýnn á að báðar deildir þingsins muni ná samkomulagi um fjárlögin.

mbl.is