„Túlkurinn“ segist hafa heyrt raddir

Thamsanqa Jantjie
Thamsanqa Jantjie "túlkaði" fyrir Barack Obama, barnabörn Mandela og fleiri. BRENDAN SMIALOWSKI

Maðurinn sem tók að sér táknmálstúlkun við minningarathöfn um Nelson Mandela segist hafa farið að heyra raddir þegar athöfnin hófst. Það hafi truflað einbeitingu hans, en hann hafi reynt að gera sitt besta.

Maðurinn heitir Thamsanqa Jantjie og er 34 ára gamall. Frammistaða hans við táknmálstúlkun hefur vakið mikla athygli og hafa fjölmiðlar um allan heim fjallað um hana. Öllum heyrnarlausum ber saman um að hann hafi ekkert vitað hvað hann var að gera og engin leið hafi verið að skilja hann.

Jantjie segir í samtali við s-afríska blaðið Star í dag að hann hafi orðið veikur um það leyti sem minningarathöfnin var að hefjast. Hann segist vera geðklofa og taki lyf við sjúkdóminum. Þegar hann átti að fara að túlka á táknmál það sem ræðumenn sögðu hafi hann farið að heyra raddir. Þetta hafi haft áhrif á frammistöðu hans.

„Það var ekkert sem ég gat gert. Ég var aleinn í hættulegum aðstæðum. Ég reyndi að hafa stjórn á sjálfum mér og ekki sýna heiminum það sem var að gerast. Mér þykir þetta mjög leitt, en þetta var sú staða sem ég var í,“ segir Jantjie.

Star segir að á heimili Jantjie megi finna myndir af honum við skyldustörf við ýmis tækifæri, m.a. þar sem hann er að túlka fyrir Jacob Zuma, forseta S-Afríku.

Jantjie segist á mánudaginn hafa fengið upplýsingar frá SA Interpreters, fyrirtækinu sem hann starfar hjá, að hann hafi fengið það verkefni að túlka á táknmáli við minningarathöfnina. Hann hafi fyllst stolti yfir því að fá að túlka við þennan sögulega viðburð.

Jantjie segist hafa fengið tæplega 10 þúsund krónur greiddar fyrir að túlka við minningarathöfnina. Í Star segir að embætti forseta S-Afríku hafi haft samband við Jantjie og óskað eftir upplýsingum um hver hafi mælt með honum í þetta verkefni.

Meistari í táknmálstúlkun

BBC vitnar hins vegar í útvarpsstöð í S-Afríku sem hefur eftir Jantjie að hann sé ánægður með frammistöðu sína á minningarathöfninni. Hann segist vera hæfur táknmálstúlkur og gagnrýni á frammistöðu hans sé ósanngjörn.

„Ég hef túlkað við mörg tækifæri,“ sagði hann í samtali við Talk Radio 702. „Ég tel að ég sé meistari í táknmálstúlkun.“

Hér má heyra útvarpsviðtalið við Jantjie. Þar segir Jantjie að hann hafi lengi starfað sem táknmálstúlkur og furðar sig á að gerð sé athugasemd við frammistöðu hans núna.

mbl.is

Bloggað um fréttina