„Túlkurinn“ var ákærður fyrir morð

Milljónir manna fylgdust með Barrack Obama, forseta Bandaríkjanna, og Thamsanqa …
Milljónir manna fylgdust með Barrack Obama, forseta Bandaríkjanna, og Thamsanqa Jantjie við minningarathöfnina um Nelson Mandela. STR

Thamsanqa Jantjie, sem öðlast hefur heimsfrægð fyrir „táknmálstúlkun“ við minningarathöfn um Nelson Mandela, á fjölbreyttan brotaferil að baki. Hann hefur verið ákærður fyrir nauðgun, þjófnað, morð og mannrán.

Þetta kemur fram í frétt frá s-afríska fjölmiðlinum eNCA. Í fréttinni segir að Jantjie hafi árið 1994 verið ákærður fyrir nauðgun. Árið 1995 var hann ákærður fyrir þjófnað. Árið 1997 var hann ákærður fyrir innbrot og árið eftir fyrir eignaspjöll. Árið 2003 var hann ákærður fyrir morð og mannrán.

Í fréttinni segir að sumar þessar ákærur hafi verið felldar niður, líklega vegna bágrar andlegrar heilsu Jantjie.

Jantjie var sýknaður af ákæru um nauðgun, en var fundinn sekur um þjónað og dæmdur í þriggja ára fangelsi. Blaðið segist ekki hafa fengið staðfest hvort hann hafi tekið út refsingu vegna þessa dóms.

Árið 2003 var Jantije, ásamt fleirum, ákærður fyrir morð og mannrán. Málið var tekið fyrir hjá dómstóli árið eftir. Í fréttinni segir að málinu hafi formlega lokið árið 2006 án dóms. eNCA segir óljóst hvort málið hafi verið fellt niður vegna veikinda Jantije. Hann vildi sjálfur ekkert tjá sig við blaðið um málið.

Vekur spurningar um öryggisgæslu við athöfnina

eNCA segir að það hafi tekið blaðið tvo sólarhringa að afla þessara upplýsinga um brotaferil Jantjie og það veki spurningar um hvernig hafi verið staðið að öryggismálum við minningarathöfnina.

Jantjie stóð við hliðina á Barack Obama forseta Bandaríkjanna, Ban Ki-moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna og fleiri af helstu þjóðarleiðtogum heims.

Jantjie hefur í viðtölum sagt að hann hafi heyrt raddir og séð engla þegar minningarathöfnin hófst og það hafi truflað einbeitingu hans þegar hann var að túlka yfir á táknmál. Hann segir að þegar hann upplifi þessar tilfinningar eigi hann til með að verða ofbeldisfullur.

Eigandi SA Interpreters er horfinn

Stjórnvöld í S-Afríku hafa ekki enn gefið upplýsingar um það hvers vegna og hver hafi ráðið Jantjie til að túlka yfir á táknmál við minningarathöfnina. Öllum ber saman um að hann hafi litla þekkingu á táknmáli og enginn hafi skilið hvað hann var að reyna að segja.

Jantjie hefur sagt að fyrirtækið sem hann starfar hjá, SA Interpreters, hafi ráðið hann í þetta verkefni. Stjórnandi fyrirtækisins virðist hins vegar vera gufaður upp, a.m.k. hefur engum fjölmiðli tekist að ná tali af honum.

mbl.is