„Þetta er síðasti dagurinn hans“

Fjöldi Suður-Afríkubúa fylgdist með útför Mandela frá leikvöngum í landinu en útsendingunni var víða varpað upp á stóra skjái svo landsmenn hefðu tækifæri til að fylgjast með. Nokkur hundruð manns horfðu á athöfnina frá leikvangi í Mthatha, sem er í nágrenni við Qunu, heimabæ Mandela.

„Allir vilja sjá hann, þetta er síðasti dagurinn hans. Þetta er dagurinn sem við getum vottað honum virðingu okkar,“ sagði einn þeirra sem fylgdust með útförinni í morgun.

Nelson Mandela, fyrrverandi forseti Suður-Afríku, hefur nú verið lagður til hinstu hvílu í fjölskyldugrafreit í heimabæ hans Qunu. 4.500 boðsgestir voru viðstaddir útförina en heldur færri voru viðstaddir greftrunina.

Fjölskylda Mandela bauð 450 vinum og ættingjum hans að vera viðstaddir kveðjustundina. Athöfnin fer fram samkvæmt siðum Xhosa-þjóðflokksins sem Mandela tilheyrði. Karlmenn úr ættbálknum höfðu umsjón með greftruninni og munu þeir meðal annars slátra uxa samkvæmt hefð.mbl.is