Mandela lagður til hinstu hvílu

Frá útförinni í morgun.
Frá útförinni í morgun. AFP

Nelson Mandela, fyrrverandi forseti Suður-Afríku, hefur nú verið lagður til hinstu hvílu í fjölskyldugrafreit í heimabæ hans Qunu. 4.500 boðsgestir voru viðstaddir útförina en heldur færri voru viðstaddir greftrunina.

Fjölskylda Mandela bauð 450 vinum og ættingjum hans að vera viðstaddir kveðjustundina. Athöfnin fer fram samkvæmt siðum Xhosa-þjóðflokksins sem Mandela tilheyrði. Karlmenn úr ættbálknum höfðu umsjón með greftruninni og munu þeir meðal annars hafa slátrað uxa samkvæmt hefð.

Jacob Zuma, forseti Suður-Afríku, sagði við útför Nelsons Mandela í morgun að samlandar hans væru skyldugir til að að halda arfleifð hans og minningu á lofti. „Þegar ferðalagi þínu lýkur í dag, heldur okkar áfram,“ sagði Zuma í ávarpi sínu. „Suður-Afríka mun halda áfram að vaxa þar sem við vogum okkur ekki að bregðast þér.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert