Norðmenn auka aðstoð við Filippseyjar

Bærinn Palo á Filippseyjum eftir að fellibylurinn Haiyan fíor þar …
Bærinn Palo á Filippseyjum eftir að fellibylurinn Haiyan fíor þar yfir í nóvember í fyrra. AFP

Norska ríkisstjórnin ákvað í morgun að auka framlag sitt til nauðstaddra íbúa á Filippseyjum um 50 milljónir norskra króna og er það nú 225 milljónir norskra króna sem jafngildir um 4,3 milljörðum íslenskra króna. Með þessu aukna framlagi sínu eru Norðmenn í þriðja sæti yfir þær þjóðir sem leggja mest fé til uppbyggingar í landinu eftir að fellibylurinn Haiyan reið þar yfir í nóvember. 

„Það er mikilvægt að alþjóðasamfélagið haldi áfram að styðja við uppbyggingarstarfið í landinu,“ sagði Børge Brende, utanríkisráðherra Noregs í fréttatilkynningu sem hann sendi frá sér í morgun. Hann er nú staddur á Filippseyjum.

Haiyan er stærsti fellibylur sem mælst hefur. Hann reið yfir 8. nóvember í fyrra og að minnsta kosti 6.111 létu þar lífið. Um 2.000 er enn saknað og 4,4 milljónir manna misstu heimili sín. Neyðin er gríðarlega mikil og Alþjóðabankinn ákvað í byrjun síðasta mánaðar að bæta við neyðaraðstoð sína á svæðinu og veitir alls um 1,5 milljarði Bandaríkjadollara til hennar.

„Ég er hérna til að sýna að Noregur og alþjóðasamfélagið hafa ekki gleymt Filippseyingum. Eftir að búið var að veita nauðsynlega neyðarhjálp er mikilvægt að til sé fé til enduruppbyggingar,“ sagði Brende í fréttatilkynningunni. „Það er mikil þörf fyrir húsnæði og atvinnutækifæri.“

Frétt Aftenposten

Børge Brende utanríkisráðherra Noregs.
Børge Brende utanríkisráðherra Noregs. www.stortinget.no
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert