Baráttunni hvergi nærri lokið

Nadezhda Tolokonnikova og Maria Alyokhina á blaðamannafundi í Singapúr í …
Nadezhda Tolokonnikova og Maria Alyokhina á blaðamannafundi í Singapúr í dag. AFP

Tveir meðlimir rússnesku hljómsveitarinnar Pussy Riot segjast ekki ætla að hætta baráttu sinni fyrir mannréttindum í Rússlandi. Þær eru nú í sinni fyrstu heimsókn utan landssteinanna eftir að hafa verið látnar lausar úr fangelsi í desember.

Nadezhda Tolokonnikova og Maria Alyokhina eru í dag viðstaddar verðlaunaafhendingu í Singapúr. Þar sögðust þær ætla að halda áfram að nota list sína til að koma málsstað sínum á framfæri.

Myndband af því er Pussy Riot flutti pönkbæn í kirkju í Moskvu hefur verið tilnefnt til verðlauna á hátíðinni í Singapúr.

Í kjölfar flutningsins voru þrír meðlimir sveitarinnar handteknir og síðar dæmdir til fangelsisvistar.

„Í augnablikinu einbeitum við okkur að mannréttindum sem felur í sér mikla lögfræðivinnu,“ sagði Tolokonnikova. Hún sagði að Pussy Riot myndi halda áfram að nota myndbönd og önnur listræn form til að koma málstað sínum á framfæri.

„Við munum alveg pottþétt halda afskiptum okkar af póltík áfram og í augnablikinu einbeitum við okkur að verkefni sem miðar að því að hjálpa föngum því í Rússlandi snýst allt slíkt um pólitík.“

Þær segjast myndu nota verðlaunaféð til að halda baráttu sinni áfram. Verðlaunin verða afhent á morgun.

Maria Alyokhina.
Maria Alyokhina. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert