ESB stöðvar viðræðurnar tímabundið

Karel De Gucht, viðskiptastjóri Evrópusambandsins.
Karel De Gucht, viðskiptastjóri Evrópusambandsins. AFP

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur stöðvað fríverslunarviðræður sambandsins við Bandaríkin tímabundið vegna ágreinings um lagalega vernd fyrirtækja. Framkvæmdastjórnin hefur áhyggjur af ákvæði sem gæti veitt fyrirtækjum heimild til þess að lögsækja ríkisstjórnir fyrir að setja lög sem færu gegn mögulegum fríverslunarsamningi og þannig til að mynda komið í veg fyrir mögulega lagasetningu á sviði umhverfismála og félagsmála.

Fram kemur í yfirlýsingu sem Karel De Gucht, viðskiptastjóri Evrópusambandsins, sendi frá sér í gær að ríkisstjórnir yrðu að sýna fyrirtækjum sanngirni til þess að laða mætti að fjárfestingar. Hins vegar væri áhyggjur fyrir hendi af því að fyrirtækin nýttu sér glufur í lögum og reglum vegna þess að lagasetningar hafi ekki verið nægjanlega skýrar. „Sumir innan Evrópusambandsins hafa raunverulegar áhyggjur af þessum hluta samnings á milli sambandsins og Bandaríkjanna.“

Ennfremur segir í tilkynningunni að Evrópusambandið ætli að taka sér þriggja mánaða tíma til þess að fara yfir málið. Skýrsla yrði síðan lögð fram í mars áður en fyrirhuguð þriðja umferð viðræðna um mögulegan fríverslunarsamning fari fram í sama mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert