ESB ekki eitt um að tryggja friðinn

Frá Cambridge University.
Frá Cambridge University. Ljósmynd/Andrew Dunn

„Um leið og við fögnum þeirri staðreynd að Evrópuríki viðurkenni í dag mikilvægi friðsamlegra samskipta þá er það sögulega ónákvæmt og misvísandi að tengja það eingöngu við Evrópusamrunann. Sérhver sagnfræðileg greining á Evrópu eftirstríðsáranna verður að taka mið af gríðarlega mikilvægum þætti Atlantshafsbandalagsins (NATO), kalda stríðsins og Bandaríkjanna í að varðveita friðinn.“

Þetta segir í aðsendri grein vefsíðu breska dagblaðsins Guardian í gær sem tíu fræðimenn á sviði sagnfræði, meðal annars við háskólana í Cambridge og Oxford, undirrita. Greinin er viðbrögð við grein eftir Frank-Walter Steinmeier, utanríkisráðherra Þýskalands, í sama blaði síðastliðinn mánudag þar sem ráðherrann gerði meðal annars að umfjöllunarefni sínu vaxandi gagnrýni á Evrópusambandið (ESB) og hélt því fram að sambandið og forverar þess hefðu tryggt friðsamleg samskipti á milli Evrópuríkja.

Fræðimennirnir benda ennfremur á að ESB hafi mistekist hrapallega að koma í veg fyrir stríðsátök á Balkanskaganum sem og samfélagsleg átök í ríkjum við Miðjarðarhafið sem efnahagsstefna sambandsins hefði stuðlað að. Ekki væri rétt að afskrifa alla gagnrýni á ESB með því að tengja hana við á þjóðernishyggju. „Ógagnsæi og skortur á lýðræðislegri ábyrgð einkenna sem fyrr stofnanir ESB. Í stað þess að beina reiði sinni að þeim sem kvarta undan skorti á lýðræði innan sambandsins ættu leiðtogar þess að viðurkenna þörfina fyrir umbætur sem forgangsverkefni.“

Fræðimennirnir sem undirrita greinina eru David Abulafia prófessor við Cambridge University, dr. David Starkey, Andrew Roberts, Nigel Saul prófessor við University of London, dr. Brian Young hjá Oxford University, dr. Robert Crowcroft hjá University of Edinburgh, dr. Hannes Kleineke, Robert Tombs prófessor við Cambridge University, dr. Richard Rex hjá Cambridge University og Jeremy Black hjá University of Exeter.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert