Hungrað fólk selur sig fyrir bolla af grjónum

Hungrið sverfur svo að íbúum í Yarmuk búðum Palestínumanna í Damaskus í Sýrlandi að þeir borða hvað sem kjafti kemur og konur reyna að selja sig fyrir mat.

Ali, sem býr í hverfinu, segir í samtali við AFP-fréttastofuna að fólk leggi sér hunda, ketti og jafnvel asna til munns. Það versta sé að dýrin svelti líka og eru ekkert nema skinn og bein. Því sé litla næringu að fá.

Dýrin svo horuð að þau eru ekkert annað en skinn og bein

„Einn sem slátraði hundi hér fann ekkert kjöt til þess að borða af dýrinu þar sem jafnvel hundarnir svelta,“ segir Ali sem var í háskólanámi þegar uppreisnin hófst í Sýrlandi árið 2011.

Yarmuk voru áður flóttamannabúðir en er orðið að hverfi í borginni enda áratugir síðan búðunum var komið á laggirnar. Árið 2011 bjuggu 150 þúsund Palestínumenn í Yarmuk en flestir þeirra höfðu flúið til Sýrlands frá heimalandinu vegna útþenslu Ísraelsmanna.

En þegar stríðsátökin brutust út í Damaskus sumarið 2012 flúðu þúsundir íbúa annarra hverfa borgarinnar inn í Yarmuk. En fljótlega varð Yarmuk átakasvæði þegar Sýrlendingar sem studdu baráttuna gegn Bashar al-Assad forseta komu sér fyrir í hverfinu. Einhverjir Palestínumenn gengu til liðs við uppreisnarmenn en aðrir styðja stjórnarherinn.

Í júní í fyrra voru settir upp tálmar í kringum hverfið og lokuðu því af. Síðan þá hafa nánast allir íbúarnir flúið. Samkvæmt upplýsingum frá Sameinuðu þjóðunum eru íbúarnir nú um 18 þúsund talsins. Sjö mánuðum síðar er nánast engan mat þar að finna né lyf. Að sama skapi hefur verðlag rokið upp og kostar kílóið af hrísgrjónum nú 11.500 krónur.

„Staðan er svo skelfileg að konur selja líkama sinn til manna sem komu sér upp matarbirgðum áður en umsátrið hófst. Selja þær sig fyrir einn bolla af hrísgrjónum eða búlgur,“ segir Ali. „Ímyndið ykkur hvernig föður líður sem getur ekki brauðfætt börnin sín sem kveina úr hungri,“ bætir hann við.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert