Litháen stefnir á evru 2015

AFP

Stjórnvöld í Litháen stefna að því að taka upp evru sem gjaldmiðil landsins árið 2015. Þetta sagði Rimantas Sadzius, fjármálaráðherra Litháen, við fjölmiðla í Brussel í gær fyrir fund fjármálaráðherra Evrópusambandsins.

„Við höfum lýst yfir vilja okkar til þess að verða hluti evrusvæðisins,“ sagði ráðherrann samkvæmt fréttavefnum Euobserver.com. Litháen stefndi upphaflega á upptöku evru árið 2006 en var neitað um það á þeim forsendum að verðbólga væri of mikil. Síðan hafa nágrannaríkin Eistland og Lettland bæði tekið upp evru.

Ennfremur segir að Litháen líti á aðild að evrusvæðinu sem pólitískt táknræna einungis tveimur áratugum eftir að landið öðlaðist sjálfstæði sitt frá Rússlandi. Endanleg ákvörðun um hvenær verði stefnt að upptöku evrunnar verður tekin af ríkisstjórn Litháen í júlí.

mbl.is

Bloggað um fréttina