Ætlaði hann að flýja?

Raffaele Sollecito
Raffaele Sollecito AFP

Rafaele Sollecito, fyrrverandi kærasti Amöndu Knox, neitar fyrir að hafa ætlað að flýja frá Ítalíu. Hann og Knox voru á fimmtudag sakfelld fyrir morðið á Meredith Kercher.

Sollecito var haldið á lögreglustöð í Udine í norðaustur hluta Ítalíu í gær, eftir að hann fannst á hóteli nálægt landamærum Ítalíu og Austurríkis.

Hann segist þó aðeins hafa verið búinn að skipuleggja ferð frá Ítalíu yrði hann sýknaður, en hafi snúið aftur við frá Austurríki um leið og hann hafði haft fregnir af því að hann hefði verið sakfelldur. Þá hafi hann innritað sig á hótelið sökum þreytu.

Lögreglumaður sagði The Guardian að Sollecito, sem hvarf úr dómssalnum rétt áður en úrskurður var lesinn, hefði eytt nóttinni með núverandi kærustu sinni rétt fyrir utan landamærin.

Vegabréf hans var gert upptækt og honum bannað að yfirgefa landið. Í dóminum yfir Sollecito sagði að það væri raunveruleg hætta á að hann myndi reyna að flýja landið, þar sem hann hefur sýnt því áhuga að leita stuðnings í einhverjum þeim löndum sem Ítalía hefur ekki framsalssamning við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert